Fullyrðing Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun þess efnis að danska og færeyska krónan væru í raun evran stenzt enga skoðun. Danska krónan er vissulega tengd við gengi evrunnar, þar sem gengi hennar var áður tengt við þýzka markið, og færeyska króna ígildi hinnar dönsku en hins vegar geta stjórnvöld í Danmörku hvenær sem er tekið ákvörðun um að sú tenging verði rofin.
Með sömu rökum hefði mátt halda því fram að danska krónan hefði í raun verið þýzka markið áður en það fór inn í evruna. Danir hafa þá sérstöðu á meðal ríkja Evrópusambandsins að hafa undanþágu frá því að taka upp evruna. Ástæðan er sú að danskir kjósendur höfnuðu Maastricht-sáttmála sambandsins fyrir um 30 árum síðan sem meðal annars lagði grunninn að evrunni. Þeir voru þá látnir kjósa aftur en meðal annars með undanþágu frá henni.
Hins vegar er áhugavert að Evrópusambandssinnar skuli ítrekað vísa til Færeyja í umræðunni um Evrópusambandið í ljósi þess að Færeyingar eru ekki aðeins utan sambandsins heldur einnig Evrópska efnahagssvæðisins sem við Íslendingar erum hluti af í gegnum aðildina að EES-samningnum. Þess í stað eru þeir með fríverzlunarsamning við Evrópusambandið sem er að mörgu leyti mjög hagstæður og kveður til dæmis á um tollfrelsi með flestar sjávarafurðir.
Tal um að Ísland þurfi að taka upp evruna sem gjaldmiðil er að sama skapi áhugavert í ljósi þess að einungis eitt af hinum norrænu ríkjunum fjórum hefur gert það, Finnland, á meðan hin þrjú hafa afþakkað hana. Þannig hafa bæði Danir og Svíar hafnað evrunni í þjóðaratkvæði og Norðmenn hafa hafnað inngöngu í Evrópusambandið með sama hætti og þar með um leið evrunni. Hins vegar tók Finnland upp evruna án þess að bera það undir kjósendur.
Taldar eru allar líkur á því miðað við skoðanakannanir á sínum tíma að evrunni hefði að sama skapi verið hafnað af kjósendum í Þýzkaland hefðu þeir getað sagt álit sitt á þeirri ákvörðun að fórna þýzka markinu fyrir hana. „Ég vissi að ég gæti aldrei unnið þjóðaratkvæði hér í Þýzkalandi. Við hefðum tapað sérhverri atkvæðagreiðslu um evruna,“ sagði Helmut Kohl, sem var kanzlari Þýzkalands þegar þýzk stjórnvöld ákváðu að taka upp evruna, í viðtali árið 2002.
Meira en fjórðungur ríkja Evrópusambandsins hefur ekki tekið upp evruna þrátt fyrir að ríkin séu öll fyrir utan Danmörku lagalega skuldbundin til þess og verið árum saman. Í flestum tilfellum vegna þess að þau hafa einfaldlega ekki viljað það. Vitanlega er áhugavert í ljósi áherzlu hérlendra Evrópusambandsinna á inngöngu í sambandið, þá einkum og sér í lagi til þess að geta tekið upp evruna, að ríki sem nú þegar eru innan þess kæri sig ekki um hana.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Frá Kaupmannahöfn. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)