„Sá vandræðagangur sem við höfum upplifað inni í landinu yfir mjög langt árabil stafar meðal annars af litlu eftirliti á innri landamærum á flugvellinum,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Vísir.is í lok ágúst á síðasta ári og vísaði þar til landamæra Íslands að öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins á Keflavíkurflugvelli.
Með aðildinni að Schengen-svæðinu fyrir um aldarfjórðungi síðan var hefðbundið landamæraeftirlit fellt niður á Íslandi gagnvart öðrum aðildarríkjum svæðisins gegn því að hægt yrði að treysta því á móti að eftirlit á ytri mörkum þess væri alls staðar öruggt. Sú hefur hins vegar aldrei verið raunin. Fyrst og fremst á suður- og austurmörkum þess.
Varað hefur verið ítrekað við stöðunni á landamærunum að Schengen-svæðinu í fjölmiðlum af hálfu Úlfars. Hefur hann meðal annars sagt að glæpamenn sem kæmu frá öðrum ríkjum innan svæðsins ættu fyrir vikið greiða leið inn í landið og að hending ein réði því hvort slíkir einstaklingar væru stöðvaðir á landamærunum að öðrum aðildarríkjum þess.
Talað hefur verið gjarnan um það að helzti kosturinn við aðildina að Schengen væri aðgangur að upplýsingakerfum þess. Hins vegar sagði Úlfar í frétt Vísis, og hefur sagt það áður, að fæstar gagnlegar upplýsingar kæmu þaðan. Frumkvæðisvinna lögreglu og tollvarða á flugvellinum hefði mest að segja. Þá nýttist íslenzka lögreglukerfið vel í þeim efnum.
„Það er nú einu sinni þannig að eftirlit þjóða á innri landamærum Schengen er ekki merkilegt, þar liggur hundurinn grafinn. Þannig að þessir einstaklingar sem koma til Íslands og við erum að frávísa á innri landamærum Schengen hafa komið inn á ytri landamæri annars staðar en á Íslandi og svo valsa þeir innan girðinga,“ sagði Úlfar enn fremur.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Farþegaþota í eigu spænska flugfélagsins Vueling á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Eigandi: Alf van Beem)