Voru þeir ekki líka í góðri trú?

Tryggingastofnun ríkisins hefur tilkynnt 45 þúsund lífeyrisþegum að þeir hafi fengið meira greitt frá stofnuninni á árinu 2024 en þeir hafi átt rétt á lögum samkvæmt og þurfi því að endurgreiða mismuninn. Fram kemur á vefsíðu stofnunarinnar að miðgildi endurgreiðslanna sé 114 þúsund krónur á mann og að umræddir einstaklingar þurfi að inna greiðslurnar af hendi frá og með 1. júní næstkomandi. Um árlegan endurreikning vegna lífeyrisgreiðslna er að ræða.

Hin almenna regla er að greiða beri til baka greiðslur úr ríkissjóði sem ekki er heimilt að taka við lögum samkvæmt. Hins vegar er ljóst að annað gildir greinilega um greiðslur upp á hundruð milljóna króna af skattfé til Flokks fólksins án þess að hann hafi uppfyllt lagaleg skilyrði þess. Svo heppilega vill til fyrir flokkinn að samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, Samfylkingin og Viðreisn, halda verndarhendi yfir honum og ætla fyrir vikið ekki að krefja hann um endurgreiðslu.

Með öðrum orðum er ljóst að á meðan lífeyrisþegar þurfa að endurgreiða fé í ríkissjóð sem þeir hafa ekki átt lagalegan rétt á gildir það ekki um Flokk fólksins. Fjármálaráðherra Viðreisnar, Daði Már Kristófersson, hefur sagt forystumenn flokksins hafa tekið við greiðslunum í góðri trú þó fyrir liggi að þeir hafi lengi vitað að hann uppfyllti ekki lagaleg skilyrði þess. En á það sama þá ekki við um lífeyrisþegana? Þessa sem Flokkur fólksins segist berjast sérstaklega fyrir?

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)