Dökka myndin orðin enn dekkri

Tvær ítarlegar skýrslur voru gefnar út á síðasta ári um stöðu efnahagsmála Evrópusambandsins sem unnar voru fyrir framkvæmdastjórn þess. Annars vegar af Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra sambandsins, og hins vegar Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Er skemmst frá því að segja að ekki var um að ræða sérlega upplífgandi umfjallanir um viðfangsefnið og framtíðarhorfur þess. Var þvert á móti dregin upp afar dökk mynd í þeim efnum.

Meginefni skýrslanna var þannig viðvarandi efnahagsleg stöðnun innan Evrópusambandsins í gegnum tíðina og hvernig það hefði dregizt aftur úr öðrum heimshlutum á flestum sviðum. Hagvöxtur hefði þannig verið lítill eða enginn og samkeppnishæfni innri markaðar sambandsins minnkað jafnt og þétt miðað við önnur markaðssvæði. Grípa þyrfti til róttækra aðgerða ef mögulegt ætti að vera að snúa þeirri þróun við. Þá mætti alls engan tíma missa í því sambandi.

Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um úttekt hugveitunnar European Policy Innovation Council í Brussel á þvi hvernig þróunin hafi verið innan Evrópusambandsins frá því að skýrsla Draghis kom út fyrir rúmu ári. Er skemmst frá því að segja að staðan hefur haldið áfram að versna á flestum sviðum. Þannig hafi efnahagur Bandaríkjanna stækkað átta sinnum hraðar en sambandsins á öðrum ársfjórðungi þessa árs samkvæmt gögnum Eurostat, hagstofu þess.

Varði tilvistargrundvöll ESB

„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa,“ segir í skýrslu Letta sem kom út í apríl 2024 og fjallaði einkum um innri markað sambandsins. Efnahagslega hefði Evrópusambandið sömuleiðis dregizt verulega aftur úr Bandaríkjunum. Jafnvel án tillits til asískra hagkerfa hefði sú eftir sem áður verið raunin.

„Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins,“ segir einnig. Fyrirtæki í Evrópusambandinu væru eftirbátar fyrirtækja í ríkjum utan þess. Einkum í Bandaríkjunum og Kína. Forskot þeirra hefði mikil áhrif á nýsköpun, framleiðni og atvinnusköpun innan sambandsins og þar með öryggi þess og möguleika til þess að hafa áhrif í framtíðinni.

Varað var við því í skýrslu Draghis að Evrópusambandið stæði frammi fyrir áskorun í þessum efnum sem varðaði hreinlega tilvistargrundvöll þess. Auka þyrfti verulega framleiðni innan þess. Efnahagsleg hnignun sambandsins hefði ekki sízt komið niður á heimilum í ríkjum þess. Jafnvel þó þau leggðu meira til hliðar en bandarísk heimili hefði fjárhagsleg staða þeirra frá árinu 2009 einungis styrkzt um þriðjung af því sem raunin hefði verið í Bandaríkjunum.

Hafa áður lofað bót og betrun

Fram kemur í skýrslum þeirra Draghis og Lettas að þegar komi að atvinnulífinu sé það ekki sízt íþyngjandi regluverk sem haldi aftur af efnahagsmálum Evrópusambandsins. Fyrirtæki í ríkjum þess stæðu í flestum tilfellum bandarískum fyrirtækjum að baki. Stöðnun ríkti í þeim efnum. Miklu minni nýliðun í atvinnulífinu ætti sér stað í ríkjum sambandsins og nýsköpun væri að sama skapi minni. Evrópsk nýsköpunarfyrirtæki leituðu sér frekar fjármagns utan þess.

„Takist ekki að auka framleiðni innan Evrópusambandsins munum við neyðast til þess að velja og hafna. Við munum ekki geta orðið í senn leiðandi á tæknisviðinu, leiðarljós ábyrgðar í loftlagsmálum og forystuafl á alþjóðasviðinu. Við munum ekki geta fjármagnað velferðarkerfi okkar. Við munum þurfa að draga úr einhverjum, ef ekki öllum, metnaðarfullum markmiðum okkar,“ segir enn fremur í skýrslu Draghis. Framtíðarhorfurnar væru ekki beinlínis heillandi.

Forystumenn Evrópusambandsins höfðu uppi stór orð um það þegar skýrslur þeirra Draghis og Lettas komu út að nú yrði snúið af braut efnahagslegrar stöðnunar. Ári eftir útkomu skýrslu Draghis og einu og hálfu eftir útkomu skýrslu Lettas hefur staðan hins vegar versnað sem fyrr segir. Þetta er enda hvorki í fyrsta né annað sinn sem skrifaðar eru skýrslur þar sem varað er við þróun efnahagsmála innan sambandsins og lofað er bót og betrun af forystumönnum þess.

Meiri samruni og miðstýring

Hérlendir Evrópusambandssinnar hafa ekki sízt haldið því fram að Ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið af efnahagslegum ástæðum. Hins vegar nefna þeir iðulega aðeins eina hagstærð í þeim efnum, stýrivexti á evrusvæðinu. Hins vegar hafa lágir stýrivextir á svæðinu engan veginn verið birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands heldur þvert á móti þeirrar alvarlegu og viðvarandi efnahagslegu stöðnunar sem fjallað er um skýrslum þeirra Draghis og Lettas.

Vert er að árétta það að um að ræða skýrslur sem unnar voru fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins af einstaklingum sem eru miklir Evrópusambandssinnar. Lausn þeirra er eins og alltaf þegar sambandið er annars vegar meiri samruni ríkja þess og aukin miðstýring. Draghi kallaði einmitt nýverið eftir því að Evrópusambandið yrði endanlega að sambandsríki, Bandaríkjum Evrópu, í samræmi við lokamarkmiðið með samrunanum innan sambandsins.

Með öðrum orðum er ljóst að jafnvel þó einungis sé horft til efnahagsmála þegar rætt er um það hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki, og fullveldisrökin sett til hliðar sem þó vega mun þyngra, getur með engu móti talizt eftirsóknarvert að ganga í sambandið. Lágir vextir, til þess að reyna að koma stöðnuðu atvinnulífi evrusvæðisins í gang, duga þar skammt. Stöðnun felur vissulega í sér ákveðinn stöðugleika en ekki sérlega æskilegan.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. september 2025)

(Ljósmynd: Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Eigandi: © European Union, 2025)